Hlutabréfavísitölur lækkuðu í upphafi dags í Bandaríkjunum en pöntunum á varanlegum fjárfestingavörum hefur fækkað nokkuð og hefur það áhrif á markaði.

Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í dag tölur um pantanir á varanlegum fjárfestingavörum en þeim hefur fækkað um 5,3% sem er nokkuð undir væntingum.

Hægt hefur á framleiðslu í Bandaríkjunum en svo virðist sem framleiðendur séu að hægja á framleiðslu sinni til að koma í veg fyrir hækkandi verðbólgu að mati Bloomberg fréttaveitunnar en það gerist samhliða því að olíuverð hefur aldrei verið hærra en nú.

Áður hafði verið spáð lækkun um 4% í könnun meðal hagfræðinga á vegum Bloomberg þannig að lækkun upp á 5,3% er nokkuð meira en von var á.

Færri flugvélar pantaðar

Pöntunum á samgöngutækjum hefur fækkað um 13% en þar vega færri pantanir á flugvélum þyngst en þeim hefur fækkað um 31%. Þá hefur pöntunum á ökutækjum fækkað um 0,8%.

Boeing tilkynnti að félagið hefði aðeins fengi pantanir fyrir 65 flugvélar í febrúar en þær voru 287 í janúar þannig að þarna eru um töluverða lækkun að ræða.