Bandaríkjamenn hafa tekið vel í þá viðleitni stjórnvalda að bjóða styrki til að skipta út gömlu druslunum fyrir nýja bíla. Búist er við að nýtt framlag ríkisstjórnarinnar í þetta verkefni endist í aðeins 48 daga til viðbótar.

Barack Obama Bandaríkjaforseti undirritaði í síðustu viku lög þar sem bætt var tveim milljörðum dala við þann eina milljarð sem þegar var búið að leggja í þetta verkefni. Á mánudagsmorgun höfðu komið 273.077 beiðnir um styrki til bílakaupa samtals upp á 1,147 milljarða Bandaríkjadala samkvæmt frétt í The Detroit News.

Þessi viðleitni Bandríkjastjórnar með „Cash for clunkers” verkefninu til að hleypa lífi í söluna á nýjum bílum hefur sannarlega skilað árangri. Fyrsti milljarður dollara sem veitt var í þetta verkefni þurrkaðist fljótlega upp og frá því lög um aukafjárveitingu voru samþykkt á föstudag og fram á mánudag höfðu selst 28.000 nýir bílar í viðbót og þeim fylgdi 116 milljóna dollara niðurgreiðsla frá ríkinu.

Verkefnið miðast við að greiddir séu allt að 4.500 dollarar fyrir hverja druslu sem skilað er til bílasala í brotajárn. Skilyrði er að þeir eyði meiru bensíni en sem nemur um 26 lítrum á hverja hundrað kílómetra og séu yngri en 25 ára. Aðeins önnur skilyrði eru þó fyrir smájeppa.