Flestir af stærri bönkum Bandaríkjanna hafa lækkað bónusgreiðslur sínar en á sama tíma hækkað grunnlaun bæði æðstu stjórnenda og millistjórnenda.

Þetta kemur fram á fréttavef Reuters en bónusgreiðslur bankastarfsmanna hafa verið töluvert í umræðunni síðustu misseri og hafa bankarnir verið harðlega gagnrýndir, m.a. af stjórnvöldum, fyrir háar slíkar greiðslur.

Mikill þrýstingur hefur verið á bankastofnanir að lækka bónusgreiðslur sínar, þá sérstaklega þær stofnanir sem fengið hafa neyðarlán hjá yfirvöldum enda snýst gagnrýnin um að bandarískir skattgreiðendur hafi ekki bjargað bönkunum til að stjórnendur þeirra fengju áfram bónusgreiðslur.

Í nýlegri könnun sem ráðgjafafyrirtækið Mercer gerði fyrir Reuters kemur fram að um 80% af þeim 60 bönkum og fjármálastofnunum sem tóku þátt í könnuninni hafa annað hvort þegar lækkað bónusgreiðslur, lagt fram áætlanir um lækkanir eða sett það sem reglu að búa ekki til nýja samninga með slíkum greiðslum.

Á sama tíma hafa 65% þeirra bankastofnana sem tóku þátt í könnuninni hækkað almenn laun starfsmanna sinna á meðan 88% þeirra hafa minnkað hlutfall bónusgreiðslna í launagreiðslum sínum.

Þó höfðu aðeins 41% umræddra bankastofnana lækkað bónusgreiðslur sínar eitt ár fram í tímann. Hins vegar höfðu 64% þeirra lækkað þær til langs tíma.

Þá höfðu 42% aðspurðra fellt út ákvæði um hinar svokölluðu gullnu fallhlífar, sem er hugtak sem notað er yfir ákvæði í ráðningasamningum æðstu bankastjórnenda sem felur í sér háar starfslokagreiðslur láti þeir af óvænt af störfum.