Vaxtamunur viðskiptabankanna er tvöfalt hærri nú en fyrir hrun, 3,64% á móti 1,86% í byrjun árs 2009. Að óbreyttu getur þetta skilað bönkunum 18 milljörðum króna í vaxtatekjur á árinu. Til samanburðar námu þær 9 milljörðum króna árið 2009. Vaxtamunurinn er þrefalt meiri en gengur og gerist hjá viðskiptabönkum á hinum Norðurlöndunum.

Morgunblaðið fjallar um málið í dag og hefur eftir Friðrik Má Baldurssyni, forseta viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, aukinn vaxtamun sýna hversu dýrt bankakerfið er. Hann segir gerðar strangar kröfur um hátt eiginfjárhlutfall sem þýðir að þeir þurfi að standa undir arðsemiskröfu Bankasýslunnar. Friðrik segir í samtali við blaðið bankakerfið greinilega óhagkvæmt þar sem rekstrarkostnaður banka, kostnaður þeirra sem hlutfall af eignum, er mun meiri hér en í nágrannalöndunum.

Blaðið bætir því við að bankarnir eigi fá kosti til að mæta hærri rekstrarkostnaði nema með auknum vaxtamun og því ekki útilokað að vaxtamunurinn geti aukist.