Lögfræðilegur ráðgjafi hópa kröfuhafa Kaupþings, LBI og Glitnis sem tóku þátt í upplýsingafundum með tilteknum fulltrúum framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta hefur sent erindi til formanns stýrinefndar um losun fjármagnshafta. Þar eru raktar aðgerðir sem umræddir kröfuhafar styðja og munu leitast við að fá framkvæmdar í krafti eigna sinna með það að markmiði að undanþága frá gjaldeyrislögum verði veitt vegna skuldaskila fyrirtækjanna. Greint er frá þessu á vef Fjármálaráðuneytisins .

Aðgerðir kröfuhafa Kaupþings

Kröfuhafar Kaupþings áætla að gefa út skuldabréf til íslenskra stjórnvalda að fjárhæð 84 milljarðar króna til þriggja ára og mun bréfið bera 5,5% vexti. Umframkrónustaða Kaupþings verður greidd inn á bréfið með fjársópsákvæði fjórðungslega. Skuldabréfið er veðtryggt og veðhlutfall skal ávallt nema að minnsta kosti 115% af höfuðstóli.

Einnig er lagt til framsal krafna Kaupþings á hendur innlendum aðilum sem og eignarhluta í innlendum félögum og öðrum eignum. Um er að ræða verðmæti að nafnverði 114,8 milljarða en bókfært virði þeirra nemur um 14,4 milljörðum króna. Hluti þessara eigna verður endurgreiddur í erlendri mynd.

Þá munu kröfuhafar Kaupþings beita sér fyrir því að Arion banki verði settur í sölumeðferð og seldur fyrir árslok 2016 að því gefnu að markaðsaðstæður séu ákjósanlegar. Kröfuhafar Kaupthings munu styðja gerð hagnaðarskiptasamning við stjórnvöld vegna eignarhlutar í Arion banka hf. þannig að skipting allrar fjárhagslegrar afkomu af bankanum renni til stjórnvalda í eftirfarandi hlutföllum, (i) afkoma á bilinu umfram 100 til 140 milljarðar skal rennur einn þriðji  til stjórnvalda, (ii) afkoma umfram 140 milljarða allt að 160 milljörðum rennur til helminga til stjórnvalda og (iii) afkoma umfram 160 milljarðar rennur að þremur fjórðu hlutum til stjórnvalda.

Aðgerðir kröfuhafa Glitnis

Tillaga kröfuhafa Glitnis hefur það að markmiði að hlutleysa greiðslujafnaðaráhrif af skuldaskilum Glitnis. Þeir leggja til greiðslu 58 milljarða króna í reiðufé. Heimilt er að draga frá allt að fimm milljarða enda sé um að ræða kostnað sem sannanlega hafi verið stofnað til á Íslandi við rekstur Glitnis og vegna lágmarksgreiðslna til innlendra kröfuhafa. Þá er lagt til framsal krafna og annarra réttinda á hendur innlendum aðilum að bókfærðu virði um 59 milljarða króna sem eru að nafnverði hátt í 200 milljarðar. Þá er einnig nefnd útgáfa skilyrts veðtryggðs skuldabréfs að fjárhæð 119 milljarða til þriggja ára.

Kröfuhafar Glitnis munu beita sér fyrir því að Íslandsbanki hf. verði settur í sölumeðferð og seldur fyrir árslok 2016 að því gefnu að markaðsaðstæður séu ákjósanlegar. Bankinn verður ekki seldur ef mat óháðs alþjóðalega viðurkennds fjárfestingarbanka sýnir að söluverð undir 90% af áætluðu verðmati.

Verði Íslandsbanki seldur til innlendra aðila skal skipta afkomu milli stjórnvalda og Glitnis með eftirfarandi hætti: (i) afkoma á bilinu umfram 85 til 119 milljarðar skal rennur einn þriðji  til stjórnvalda, (ii) afkoma umfram 119 milljarða allt að 136 milljörðum rennur til helminga til stjórnvalda og (iii) afkoma umfram 136 milljarðar rennur að þremur fjórðu hlutum til stjórnvalda.

Aðgerðir kröfuhafa LBI

Tillaga kröfuhafa LBI byggir á þeirri forsendu að kröfuhafar LBI hafi þegar komið til móts við greiðslujafnaðarvandamál Íslands með lengingu í skuldabréfi Landsbankans og Avens viðskiptunum við Seðlabanka Íslands þegar lengt var í fjármögnun ríkissjóðs og veittur 37% afsláttur af gengi krónu gagnvart evru.

Samkvæmt tillögum kröfuhafanna mun LBI afhenda lausafé búsins í krónum að frádregnum (i) krónum sem standa til tryggingar ágreiningskröfum sem eru í dag tæplega 50ma og (ii) innlendum rekstrarkostnaði (að undanskildum hvatagreiðslum) og greiðslu lágmarkskrafna. Þá munu kröfuhafar LBI beita sér fyrir því að tilteknar innlendar eignir búsins verði framseldar stjórnvöldum en um er að ræða eignir að virði rúmlega 10 milljarða króna. Til viðbótar mun LBI afhenda stjórnvöldum útgreiðslur í krónum úr tilteknum þrota- og slitabúum.

Kröfuhafar LBI munu beita sér fyrir því og eftir atvikum fjármagna fullnaðargreiðslur í reiðufé á öllum forgangskröfum LBI fyrir árslok. Fyrirgreiðsla kröfuhafa LBI er m.a. háð skilyrði um endurgreiðslu Avens skuldabréfsins.

Nánar á vef Fjármálaráðuneytisins.