Íslensku bankarnir ættu að sækja fjármagn á alþjóðlega fjármálamarkaði áður en veikindi íslenska hagkerfisins verða til þess að verulega dregur úr eftirspurn eftir íslenskum pappír, sagði Su-Lian Ho, sérfræðingur hjá japanska fjármálarisanum Sumitomo Mitsubishi Banking Corporation (SMBC) í London, í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Ho segir að íslensku viðskiptabankarnir hafi staðið sig vel í að sækja fjármagn á markað, þrátt fyrir erfiðar aðstæður, og að þeir hafi náð að endurfjármagna sig að mestu fyrir árið 2006. "En það þarf að reikna með auknum fjármagnskostnaði og hækkandi vöxtum á evrusvæði og í Bandaríkjunum, sem mun gera bönkunum erfitt fyrir," segir Ho. "Þó svo að bankarnir vildu frekar gefa út (skuldaviðurkenningar) við hagstæðari markaðsaðstæður, þá geta þeir ekki frestað útgáfunni mikið lengur."

Ho bendir á að útlitið sé ekki bjart og að verðbólguþrýstingur sé verulegur og að þó svo að góður hagvöxtur verði á árinu 2006 séu auknar líkur á óþægilegri lendingu á næsta ári. "Þetta leiðir til þess að bankarnir verða að heimsækja markaðinn á ný fyrir lok árs ef þeir vilja draga úr áhrifum íslenska hagkerfisins á fjármögnunarkostnað þeirra," segir hún. "Það er ennþá næg eftirspurn frá fjárfestum, en kostnaðurinn er enn töluverður."

Álag skuldatryggingar (e. credit default swaps) bankanna er enn allmikið, segja sérfræðingar, þó svo að það hafi minnkað eftir að það náði hámarki í kjölfar fjölda neikvæðra greininga erlendra aðila um íslenska bankakerfið. Ho telur þó að íslensku bankarnir séu ekki hólpnir enn og bendir á að Glitnir og Kaupþing séu í ágætis stöðu en að Landsbankinn sé á eftir í fjármögnunarkapphlaupinu.

Glitnir gaf til kynna í maí, eftir að álag á skuldatryggingar bankanna lækkaði kjölfar góðra fyrsta fjórðungs uppgjöra, að bankinn eygði skuldabréfaútboð í september ef álagið væri í kringum 35 punkta. Hins vegar hefur álagið hækkað aftur vegna lækkana á hlutabréfamörkuðum, segir Ho, og hún telur það ólíklegt að það fari svo lágt á árinu. Álagið á fyrsta flokks, fimm ára bréf Glitnis eru nú um 50 punktar, en til samanburðar er álagið um 65 punktar á svipuð skuldabréf Kaupþings banka. Ho segir þó að álagið geti minnkað ef uppgjör bankanna á öðrum fjórðungi verða góð.