Sala á orkudrykkjum sem innihalda meira en 150 mg af koffíni á lítra hefur nú verið leyfð hérlendis.

Hingað til hefur leyfilegt hámark koffíns í drykkjum verið 150 mg á lítra, en með breytingu á reglugerð var þetta hámark afnumið.

Dæmi um orkudrykk sem ekki hefur mátt selja er sterkari útgáfa af orkudrykknum Cult en hún inniheldur 320 mg af koffíni.   Í fréttatilkynningu sem innflytjandi Cult á Íslandi sendi frá sér segir að Ísland, Noregur og Danmörk hafi til skamms tíma bannað orkudrykki sem innihaldi meira en 150 mg af koffíni í hverjum lítra.

„Einn af framleiðendum slíkra drykkja fór í mál við norska ríkið, þar sem hann benti á að Noregur gæti ekki bannað vöru sem væri leyfð annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu. Ríkið tapaði og var skyldað til að aflétta þessu banni. Sá úrskurður nær líka til Íslands og því eru íslenskir neytendur loksins að fá tækifæri til að njóta þessarar orkubombu,“ segir í tilkynningu frá Cult.   Breyting þessa efnis á reglugerð nr. 587/1993 hefur verið auglýst í Stjórnartíðindum og hefur breytingin því öðlast gildi. Með breytingunni er hámark á koffíninnihaldi í drykkjum afnumið.