Baugur og Talden Holding hafa keypt matvælafyrirtækið Woodward Foodservice af Giant Bidco. Í tilkynningu frá Baugi kemur fram að kaupin eru gerð í samvinnu við stjórnendur Woodward. Velta Woodward er um 180 milljónir punda á ári og hefur það á boðstólunum fjölbreytt úrval matvæla. þar á meðal eru ferskur fiskur og kjöt, fryst, kæld og innpökkuð matvara fyrir veitingahús, krár hótel og skóla um allt Stóra-Bretland.

Undanfarin ár hefur félagið vaxið úr því að vera lítið og staðbundið fyrirtæki í það að verða þriðja stærsta fyrirtækið á Stóra-Bretlandi á sviði veitingaþjónustu og það sem hraðast vex. Velta Woodward hefur aukist úr 96 milljónum punda í rúmlega 150 milljonir punda á undanförnum tveimur árum og er búist við því að hún nái 180 milljóna punda markinu á þessu ári. Hjá fyrirtækinu starfa 1.100 manns á 14 dreifingarstöðvum víðsvegar um Stóra-Bretland. Lloyds TSB fjármagnar kaupin.

Stjórnendahópur Woodward hefur undir forystu Ed Hyslop, framkvæmdastjóra félagsins, keypt umtalsverðan hlut í fyrirtækinu með fulltingi Baugs og Talden.

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri UK Investments hjá Baugi Group sagði í tilefni af yfirtökunni: "Framundan eru spennandi tímar hjá Woodward sem sjálfstætt fyrirtæki. Við erum sannfærð um að það séu fjölmörg tækifæri sem bjóðast í þessum geira og að Woodward verður í góðri aðstöðu til að eflast í náinni framtíð."

Ed Hyslop sagði: "Woodward hefur alltaf brugðist fljótt við í að bjóða það besta í matvælaþjónustu. Þessi kaup færa fyrirtækinu aukið sjálfsforræði og frelsi til þess að taka snöggar ákvarðanir með stuðningi Lloyds TSB og áframhaldandi stuðningi Baugs og Talden sem halda umtalsverðum hlut í Woodward."