Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ). Bendikt hefur gegnt starfi lögfræðings samtakanna frá árinu 2019 og tekur hann við framkvæmdastjórnarstöðunni í haust af Andrési Magnússyni af hefur stýrt samtökunum undanfarin sextán ár.

Benedikt er útskrifaður frá lagaheild Háskóla Íslands og áður en hann hóf störf hjá SVÞ starfaði hann á nefndarsviði Alþingis og síðar sem deildarsérfræðingur í fjármálaráðuneytinu.

Haft er eftir Benedikt í fréttatilkynningu að starfið leggist afar vel í hann.

„Starfsemi aðildarfyrirtækja SVÞ er á afar breiðu sviði, viðfangsefnin fjölbreytt og við stjórnendum blasa sífelldar áskoranir. Við finnum að fyrirtækin reiða sig oft samtakamáttinn sem starf SVÞ grundvallast á og það er verðugt verkefni að gæta hagsmuna rúmlega fjögur hundruð fyrirtækja. Það er eitt megin verkefni SVÞ að tryggja að til staðar séu tækifæri til hagræðingar, ekki síst með nýtingu stafrænnar tækni og gervigreindar. EES-samningurinn hefur reynst okkur afar vel en honum fylgja líka áskoranir. Innleiðing viðbótakrafna verður að taka mið af mati á getu fyrirtækja til að takast á við þær. Ég þakka traustið og stuðninginn sem stjórn SVÞ hefur sýnt mér en vil nota tækifærið og hrósa starfsfólki aðildarfyrirtækja samtakanna því án ykkar stæðum við ekki í þeim sporum sem við stöndum nú“ er haft eftir Benedikt í fréttatilkynningunni.