Ríkislögmanni ber að afhenda Viðskiptablaðinu afrit af stefnum sjö útgerðarfélaga í bótamálum vegna úthlutunar á aflaheimildum í makríl. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál (ÚNU).

Í desember á síðasta ári óskaði Viðskiptablaðið eftir því að fá afrit af stefnum makrílmálanna, bæði í makrílmálunum fyrri, það er þeim er varða úthlutun veiðiáranna 2011-14, og þeim síðari er lutu að úthlutun áranna 2015-18. Fyrri málunum lauk með dómum Hæstaréttar þess efnis að úthlutun aflamarks með reglugerð hefði ekki staðist lög og að skylt hefði verið að hlutdeildarsetja stofninn. Með reglugerðinni hafði hlutur aflareynsluskipa verið skertur umtalsvert og leituðu útgerðirnar viðurkenningar á bótaskyldu ríkisins vegna þessa. Ljóst er að samanlagðar bótakröfur útgerðanna hlaupa á milljörðum króna og mögulega á ellefu stafa tölu.

Fyrir jól synjaði ríkislögmaður beiðni blaðsins þar sem ekki lægi fyrir samþykki útgerðanna fyrir því að stefnurnar yrðu afhentar. Þá taldi embættið að um aðgang að gögnunum færi samkvæmt lögum um meðferð einkamála en ekki upplýsingalögum. Ótækt væri að almenningur ætti rýmri aðgang að gögnum í einkamálum þar sem stefnu væri beint að stjórnvaldi.

Útgerðirnar leggjast gegn afhendingu gagnanna

Í kæru blaðsins kom fram að mögulega hefðu stefnurnar að geyma einhverjar fjárhagsupplýsingar úr bókum útgerðanna sem sanngjarnt og eðlilegt væri að færu leynt. Það gæti hins vegar ekki valdið því að synja ætti um afhendingu að skjölunum í heild. Þá væri alþekkt að dómarar landsins væru misduglegir við að umrita málsatvika og -ástæðukafla við samningu dóma og því hefði hluti upplýsinganna birst opinberlega nú þegar.

Við mat á því hvort um aðgang að gögnunum færi eftir lögum um meðferð einkamála eða upplýsingalögum byggði blaðið enn fremur á því að stærsti hlutinn í starfi ríkislögmanns væri móttaka kröfubréfa og vörn í dómsmálum fyrir hönd ríkisins. Ríkið væri ekki hefðbundinn aðili að dómsmáli enda verða allar aðgerðir stjórnvalda að eiga sér lagastoð og að hlutlægnisskylda hvíldi á ríkinu í dómsmálum. Sömu sjónarmið gætu ekki verið uppi um afhendingu dómsskjala í hefðbundnum einkamálum og einkamálum sem ríkið á aðild að. Leiddi það af grunnreglu réttarríkisins um að stjórnvöld séu bundin af lögum. Í samfélagi, sem lúti sameiginlegum og almennum lögum sem bindi bæði borgara og ríkið, yrði að teljast mikilvægt að almenningur gæti fylgst með því að ríkið stæði sína plikt.

Sjá einnig: Langt í land í makrílmálunum

Áður en málið var tekið til úrskurðar óskaði ÚNU eftir afstöðu útgerðanna sjö til afhendingu skjalanna. Í öllum tilvikum lögðust útgerðirnar gegn því að stefnurnar yrðu afhentar þar sem þær hefðu að geyma mikilvægar fjárhags- og samkeppnisupplýsingar. Þá töldu þær að um aðgang að stefnunum yrði að fara eftir lögum um meðferð einkamála.

Viðkvæmar fjárhagsupplýsingar skulu afmáðar

Í úrskurði ÚNU er bent á að upplýsingalögunum hafi verið breytt á síðasta ári og gildissvið þeirra útvíkkað þannig að þau giltu einnig um stjórnsýslu dómsvaldsins. Réttur almennings næði hins vegar ekki til gagna einstakra dómsmála og endurrita úr dómabók og þingbók enda gilda réttarfarslög um þau efni.

„Að slepptu þessu ákvæði er ekki að finna nein ákvæði í upplýsingalögum sem fjalla um önnur málsskjöl sem stjórnvöld hafa í vörslum sínum og hafa verið lögð fram í einkamáli sem rekið er fyrir dómi. Verður því ekki séð að löggjafinn hafi ákveðið að stjórnvöld geti fortakslaust undanskilið slík gögn með sama hætti og gert er með gögn í vörslu dómstóla [...]. Verður því að leggja til grundvallar að almennar reglur upplýsingalaga gildi almennt um aðgang almennings að málsskjölum úr einkamálum sem stjórnvöld og eftir atvikum aðrir aðilar en dómstólar [...] hafa í vörslum sínum og að ekki sé heimilt að synja um aðgang að slíkum gögnum nema að því marki sem undanþáguákvæði [upplýsingalaga] taki til þeirra,“ segir í úrskurði ÚNU.

Að mati nefndarinnar voru upplýsingar um dómkröfur, málsatvik, málsástæður og helstu rök fyrir dómkröfum ekki þess eðlis að ekki væri unnt að veita aðgang að þeim. Hins vegar höfðu tvær stefnur að geyma upplýsingar sem vörðuðu viðkvæmar fjárhagsupplýsingar tveggja útgerða. Var fallist á að sanngjarnt væri að þær upplýsingar skyldu afmáðar áður en afrit af upplýsingunum yrði veitt. Að öðru leyti var það mat nefndarinnar að hagsmunir almennings af því að fá aðgang að upplýsingunum myndu vega þyngra en hagsmunir lögaðilanna af því að þær skyldu fara leynt.

Hingað til hefur embætti ríkislögmanns ávallt synjað um að veita afrit af stefnum í málum sem beint er að ríkinu. Er því um nokkuð stefnumarkandi úrskurð að ræða fái hann að standa óhaggaður.