Viðbúið er að langan tíma muni taka að fá botn í mál útgerða landsins gegn ríkinu vegna úthlutunar á aflaheimildum í makríl árin 2011-18. Fjórum málum er lokið að hluta en minnst sex mál til viðbótar hafa verið höfðuð. Verði niðurstaðan á versta veg fyrir ríkið er viðbúið að það muni þurfa að greiða útgerðunum tugmilljarða króna.

Fyrir jól féllu tveir dómar í málum Ísfélags Vestmannaeyja (ÍV) og Hugins gegn ríkinu þar sem viðurkennd var bótaskylda síðarnefnda aðilans vegna úthlutunar aflaheimilda í makríl árin 2011-14. Aflamarki var úthlutað með reglugerð og við þá athöfn var hlutdeild aflareynsluskipa, sem stundað höfðu „ólympískar veiðar“ árin á undan, skert.  Um viðurkenningarmál var að ræða og fallist á bótaskyldu ríkisins. Tvö eins mál biðu í héraði eftir dómi Hæstaréttar. Þeim lauk með dómsátt í þessum mánuði þar sem bótaskylda ríkisins var viðurkennd. Sex útgerðir til viðbótar hafa stefnt ríkinu vegna úthlutunar áranna 2015-18.

Örðugt að sanna upphæð

Þó að viðurkenning á bótaskyldu liggi fyrir á enn eftir að sanna hvert tjón útgerðanna var. Viðbúið er að dómkvaddir verði matsmenn til þess verks. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að kröfurnar séu í kringum annan tug milljarða króna án þess að tekið hafi verið tillit til dráttarvaxta. Það bætir ekki stöðu ríkisins að fyrir liggur fordæmi Hæstaréttar í sambærilegu máli frá 2009 er varðaði úthlutun á aflamarki í skötusel. Þar var krafa útgerðar, upp á 25 milljónir, tekin til greina að fullu.

Frumvarp til laga um hlutdeildarsetningu makríls var samþykkt á þingi í vikunni. Frumvarpið felur í sér viðbrögð við dómum Hæstaréttar fyrir jól. Frumvarpið felur í sér að hlutur aflareynsluskipanna verður aukinn en þó ekki til fulls. Hlutur vinnsluskipanna verður skertur á móti. Í meðförum þingsins var síðan hlutur smábáta aukinn sem á ný skerðir hlut hinna tveggja flokkanna. Heimildir blaðsins herma að einhver fyrirtæki hafi verið tilbúin til að gefa afslátt af kröfum sínum ef löggjöfin yrði færð í það horf sem upphaflega hefði átt að gera. Það hefði hins vegar verið líklegt til að skapa ný bótamál af hálfu útgerða sem hafa skapað sér aflareynslu undanfarinn áratug.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .