Danska stórblaðið Berlingske Tidende birtir heldur kaldhæðnislega grein um afskráningu deCODE, móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar, úr Nasdaq kauphöllinni. Fyrirsögnin segir allt sem segja þarf: Meira að segja DNA Íslendinga er orðið verðlaust. Í greininni kemur fram að Íslendingar berjist nú á mörgum vígstöðvum og það sé ekki til að auðvelda þeim leikinn að hið mjög svo dáða félag deCODE eigi í efiðleikum.

Í greininni segir einfaldlega að deCODE hafi verið hent út af Nasdaq markaðinum. Dönsku blaðamennirnir leyfa sér að fullyrða að þar með sé gagnagrunur með erfðamengi Íslendinga orðinn verðlaus. Saga félagsins er rifjuð upp og að félagið hafi verið skráð árið 2000 í Nasdaq kauphöllina.

Í greininni segir að rétt eins og svo mörg önnur íslensk ævintýri sé deCODE lítið annað en bitur minning. Og eins og Íslendingasögurnar þá endi saga félagsins með heldur blóðugum hætti þrátt fyrir miklar hugmyndir.

Með greinni fylgir mynd af Friðrik krónprins og Maríu krónprinsessu í heimsókn hjá deCODE í maí 2008. Ekki fylgir sögunni hvort bláa kóngablóðið hafi verið skimað.