Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir að bankar eigi að halda áfram að leita allra leiða til þess að styrkja eiginfjárgrunn sinn í kjölfar þeirra skakkafalla sem á þá hefur dunið vegna lánsfjárkreppunnar á fjármálamörkuðum.

Á ráðstefnu sem haldin var í Chicago í dag sagði Bernanke að „fjármálafyrirtæki hefðu upp að vissu marki brugðist við miklu tapi með því að sækja sér nýtt fjármagn - en meira þyrfti hins vegar til“.

Hann bætti því við að þau væru frekar varkár þegar kæmi að því að veita ný útlán, sem hafi haft afleiðingar fyrir sjálft hagkerfið.

Ummæli Bernanke endurspegla þær áhyggjur sem hann og aðrir forsvarsmenn bandaríska seðlabankans hafa viðrað í þessari viku um að aðstæður á fjármálamörkuðum séu enn ekki komnar í eðlilegt horf.

Bernanke sagði einnig að seðlabankinn væri að íhuga að herða leiðbeiningareglur sínar til bankastofnana í því augnamiði að auka gæði áhættustýringar þeirra.

Bankar og verðbréfafyrirtæki hafa sótt sér samtals um 244 milljarða Bandaríkjadala frá því í júlí á seinasta ári. Hins vegar nema afskriftir og tap vegna lánsfjárkreppunnar í kringum 333 milljarða dala.

Bæði Bernanke og Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hafa ítrekað hvatt fjármálafyrirtæki á Wall Street til þess að halda áfram að sækja nýtt fjármagn á mörkuðum.

Bernanke sagði að slíkar aðgerðir „hjálpuðu ekki aðeins sjálfu raunhagkerfinu heldur einnig fjármálafyrirtækin. Þau yrðu í kjölfarið í sterkari stöðu til að nýta sér þau hagnaðartækifæri sem myndu skapast þegar aðstæður á fjármálamörkuðum og í hagkerfinu færðust til betri vegar á ný“.