Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna segir að ef ríkisstjórn Bandaríkjanna tekst ekki að kma stöðugleika á fjármálakerfið þar í landi sé alls óvíst að hagkerfið taki við sér á þessu ári.

Þetta sagði Bernanke þegar hann sat fyrir svörum viðskiptanefndar bandaríska þingsins í dag og ítrekaði að með frekari hnignum fjármálamarkaða og minnkandi einkaneyslu væri mikil hætta á að hagkerfið myndi dragast enn frekar saman.

Hann sagði að ef ríkisstjórnin, þingið og Seðlabanki Bandaríkjanna myndu vinna saman og ná með sameiginlegu átaki stöðugleika á mörkuðum á næstum mánuðum, „þá er raunhæft að gera ráð fyrir því að við munum sjá bata í lok þessa árs og hagvöxt á næsta ári,“ sagði Bernanke.

Bernanke sagði þó að batinn væri ekki allur undir bandarískum yfirvöldum kominn því með frekari samdrætti og lausafjárskorti, meðal annars í Evrópu og Asíu gæti útflutningur dregist verulega saman auk þess sem lítil von væri eftir erlendum fjárfestingum – sem síðan myndi tefja frekari uppbyggingu hagkerfisins.

Hann sagði að Seðlabankinn myndi áfram halda stýrivöxtum – sem nú eru 0 – 0,25% - í lágmarki og hét því að bankinn myndi leggja sitt af mörkum til að komast út úr efnahagskrísunni og ná bata á fjármálamörkuðum.