Hagnaður bandaríska bílaframleiðandans Ford nam 2,1 milljarði Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, samanborið við 1,4 milljarða dala tap á sama tíma í fyrra.

Greiningaraðilar vestanhafs hafa fagnað uppgjöri Ford en þetta er besti ársfjórðungshagnaður félagsins í 6 ár.

Í tilkynningu frá félaginu sjálfu kemur fram að fyrir utan miklar hagræðingaraðgerðir síðustu misseri megi rekja hagnaðinn til aukinnar sölu bifreiða á fyrstu mánuðum þessa árs. Það þykir jákvætt tákn í bandarískt hagkerfi ef almenningur er farinn að kaupa sér dýra hluti því einkaneysla telur til um 2/3 af bandarísku hagkerfi.

Þannig jókst salan í Bandaríkjunum um 37% á milli ára en hafa verður þó í huga að síðasta ár var eitt það slakast í sögu félagsins í sölu. Þá stendur til að auka framleiðslu um 9% á þessu ári en forsvarsmenn Ford vildu þó ekkert gefa upp um það hvort farið yrði í miklar mannaráðningar til þess.

Ford segist jafnframt búast við hagnaði á öllum ársfjórðungum þessa árs þannig að ekki verður annað sagt en að bjartsýni ríki þar á bæ. Í raun má segja að Ford menn hafi ástæðu til að hreykja sér af árangri sínum en ólíkt stærstu samkeppnisaðilum sínum, General Motors og Chrystler, þurfti félagið ekki á neyðarlánum frá bandarískum yfirvöldum að halda um þar síðustu áramót þegar hin félögin tvö riðuðu á barmi gjaldþrots.