Sölvi Melax sem rekur bílaleigumiðlunina VikingCars segir jafningjaleigu á bifreiðum hafa komið tryggingarfélögum og yfirvöldum í opna skjöldu. Aðilar hafi þurft tíma til þess að átta sig á um hvers konar starfsemi væri að ræða, enda sé starfsemin í grundvallaratriðum öðruvísi en hjá hefðbundnum bílaleigum. Segir Sölvi þetta hafa tafið starfsemina töluvert, en áréttar að einstaklingum sé heimilt að leigja út eignir sínar, og séu bifreiðar þar með taldar.

VB.is hefur áður fjallað um bílaleigumiðlanir á Íslandi , en nú hafa fjórir aðilar hafið starfsemi á markaðnum. Starfsemin snýst í meginatriðum um að veita einstaklingum færi á að leigja bíla sína út til einstaklinga.

Sölvi segir einnig að jafningjaleigur séu umhverfisvænar og þjóðhagslega hagkvæmar. Bílafloti Íslendinga sé orðinn gamall og fáir einstaklingar fest kaup á nýjum bifreiðum síðustu 6-7 árin. Jafningjaleigur gefi einstaklingum tækifæri til að festa kaup á nýrri bifreið, leigja hana út á eftirspurnartímum og nýta hann á öðrum. Með þessu fyrirkomulagi muni notkun hverrar bifreiðar aukast, tekjur heimiila aukast og bílafloti landsmanna yngjast. Auk þess eyði nýir bílar mun minna eldsneyti en 8-10 ára gamlir bílar og muni þetta því leiða til minni eldsneytisnotkunar.