Úr viðtali Viðskiptablaðsins við Björgólf Jóhannsson.

„Ég var talsmaður náttúrupassans og tel að það hafi verið rétta leiðin. Það eru ýmsar útfærslur á honum og ráðherra ákvað að fara ákveðna leið. Það var ljóst að það hefði áhrif á landann sérstaklega út frá reglum EES. Ég trúi því að við munum finna einhverjar þær leiðir sem gefa okkur möguleika á að innheimta gjöld sem við getum kallað þjónustugjöld," segir Björgólfur Jóhannsson.

„Við höfum bent á að það geta verið bílastæðagjöld eða aðgangseyrir að einhverjum svæðum eða eitthvað slíkt. Einfaldasta leiðin, fyrst náttúrupassinn er fallinn frá, eru svona gjöld, eins og bílastæðagjöld. Þau geta skilað töluvert miklu fé og eru gjaldtaka sem þekkist alls staðar í heiminum. Það þekkja allir P-merkin og mönnum finnst bara eðlilegt að þurfa að borga fyrir þá þjónustu."

„Og ég trúi því að þó að þetta sé á fjárlögum núna, vegna þess að það er aðkallandi uppbygging á mörgum stöðum, að þá auðnist að finna lausnir til að ná auknu fé til að tryggja uppbyggingu á ferðaþjónustustöðum og arð af landinu sem við eigum. Við megum ekki gleyma því að hið opinbera — ríkið og sveitarfélög — eru langstærsti landeigandinn. Mér finnst bílastæðagjöld algjörlega klár leið því hún þekkist alls staðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .