„Ég er ekki viss um að þetta sé það skynsamlegasta sem við gerðum hér,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, spurður um það hvort útgerðin sé á meðal þeirra sem hafi hug á að kaupa skip og kvóta útgerðarinnar Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum stæði slíkt til boða.

Eins og fram kom fyrir helgi hefur Síldarvinnslan á Neskaupsstað samið um kaup á eignum Bergs-Hugins. Magnús Kristinsson og fjölskylda hans hefur rekið útgerðina í fjóra áratugi. Viðskiptin eru liður í skuldauppgjöri Magnúsar við Landsbankann. Bæjarstjórn Vestmannaeyja telur sig hins vegar eiga forkaupsrétt að eignum Bergs-Hugins í samræmi við 12. grein fiskveiðistjórnunarlaga.

Unnið er að undirbúningi þess að láta reyna á málið og ekki útilokað að það fari fyrir dómsstóla. Haft var eftir Elliða Vignissyni að fái bærinn forkaupsrétt að eignum útgerðarinnar þá muni öðrum útgerðarfélögum boðið að taka þátt í fjárfestingunni.

Tíðkast hefur í Eyjum í gegnum tíðina að þegar ein útgerð leggur upp laupana þá kaupi aðrar í Eyjum eignir félagsins.

Sigurgeir Brynjar, sem þekktur er sem Binni í Vinnslustöðinni, segir í samtali við vb.is útgerðina ekki hafa skoðað kaup á eignum Bergs-Hugins.

„Í ljósi umhverfisins finnst okkur ekki miklar líkur á því að það sé skynsamleg fjárfesting til framtíðar. Með veiðileyfagjaldinu er ekki mikið svigrúm til fjárfestinga, hvorki í tækjum né tólum,“ segir hann.