Birkir Kristinsson hefur samið við slitastjórn Glitnis um endurgreiðslu á 86 milljónum sem hann græddi á því að halda á bréfum í bankanum í rúmt hálft ár í gegnum félag sitt, BK-44. Samningurinn við slitastjórnina veldur því að honum hefur ekki verið stefnt til greiðslu skaðabóta eins og tveimur öðrum sakborningum í málinu. Kemur þetta fram í frétt Vísis .

Í ákæru sérstaks saksóknara á hendur Birki, Jóhannesi Baldurssyni, Elmari Svavarssyni og Magnúsi Arnari Arngrímssyni, er fjallað um ólögmætan hagnað Birkis af hlutabréfaeigninni.

Þar segir að félag hans, BK-44, hafi í mars 2008 fengið greiddan 50 milljóna króna arð af hlutabréfunum. Glitnir hreyfði ekki við arðinum, jafnvel þótt allur hugsanlegur arður væri veðsettur fyrir 3,8 milljarða láninu sem Birkir fékk til hlutabréfakaupanna í nóvember 2007 og að lánið væri löngu komið á gjalddaga.

Í öðru lagi segir í ákærunni að verðbréfamiðlarinn Elmar Svavarsson hafi komið því þannig fyrir í júlí 2008, við uppgjör skaðleysissamkomulags sem fullyrt er að Glitnir hafi gert við Birki, að gert var upp við hann á of háu gengi ― hærra en þurfti til að kaupa bréfin aftur þannig að BK-44 gæti greitt upp lánið og byði engan skaða af viðskiptunum. Við það hafi orðið til 36 milljóna króna hagnaður hjá félaginu.

Hagnaðist Birkir því um 85,7 milljónir á því að eiga bréfin í átta mánuði og í einum ákæruliðnum er Elmar Svavarsson sérstaklega ákærður fyrir umboðssvik með því að haga málum þannig að sá hagnaður myndaðist.