Sæmundur Friðjónsson og Birna Bragadóttir hafa verið ráðin til starfa hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sæmundur hefur verið ráðinn forstöðumaður Upplýsingatækni hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Verkefni hans eru allt frá hefðbundnum skrifstofukerfum til umfangsmikilla rekstrar- og stýrikerfa veitna og virkjana auk mikilvægra kerfa til reikningagerðar.

Fram kemur í tilkynningu að Sæmundur er með BSc gráðu í tölvunarfræðum frá Háskóla Íslands og MSc próf í Stjórnun frá UPF í Barcelona. Hann hefur breiða reynslu af störfum í upplýsingatækni allt frá árinu 2001, og kemur til Orkuveitunnar úr starfi sem deildarstjóri Upplýsingakerfa hjá Vodafone.

Birna Bragadóttir er tekin við starfi starfsþróunarstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Hjá Orkuveitunni starfa um 400 manns með margvíslega menntun og eru þróun þekkingar og kunnáttu starfsmanna fyrirtækinu afar mikilvæg.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Birna er með BA próf í félagsfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur unnið hjá Icelandair undanfarin 12 ár, meðal annars við starfsþjálfun og starfsþróun, og nú síðast sem staðgengill forstöðumanns flugþjónustudeildar.

Talsverðar breytingar hafa orðið á mannahaldi Orkuveitunnar síðustu misseri. Eins og fram kemur í nýútkominni framvinduskýrslu Aðgerðaáætlunar Orkuveitunnar og eigenda – Planinu – hefur starfsfólki fækkað mikið – úr 607 í 423 – og eru fastráðnir starfsmenn móðurfélagsins nú 392. Tilboði Orkuveitunnar til eldra starfsfólks um flýtt starfslok var vel  tekið og hafa 48 starfsmenn þegar tekið því. Ráða hefur þurft í stað nokkurra þeirra sem látið hafa af störfum.