101 Productions hefur ráðið Birnu Ósk Hansdóttur í stöðu framkvæmdastjóra félagsins og mun hún hefja störf 1. nóvember næstkomandi, að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Birna starfaði sem framleiðslustjóri RÚV frá árinu 2012 en hefur einnig starfað sem sjálfstætt starfandi dagskrárgerðarmaður, framleiðandi, fréttamaður og við almannatengsl.

Birna hefur MPA próf frá Háskóla Íslands ásamt BA gráðu í stjórnmála- og fjölmiðlafræði.

Hún er gift Einari Erni Jónssyni, íþróttafréttamanni, og eiga þau tvö börn.

101 Productions er ungt fjölmiðla- og framleiðslufyrirtæki en undir þeirra hatti er Útvarp 101 sem fagnar eins árs afmæli 1. nóvember næstkomandi. Nýjasta verkefni fyrirtækisins er farsímaþjónustan 101 Sambandið sem var sett á laggirnar í ágúst.

Stjórn félagsins lýsir ánægju með ráðningu Birnu Ósk í yfirlýsingu og telur að störf hennar hjá Ríkisútvarpinu muni vafalaust nýtast vel í þeim fjölmörgu framleiðsluverkefnum sem fyrirtækinu nú býðst. Hún taki við góðu búi af Valdísi Þorkelsdóttur sem nú haldi í barneignarleyfi. Ítrekar stjórn þakkir sínar til hennar fyrir farsæl störf í þágu félagsins.