*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 3. janúar 2017 13:37

Birta hagsmunaskráningu hæstaréttardómara

Hæstiréttur Íslands hefur gert hagsmunaskráningu hæstaréttardómara opinbera á vef sínum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hæstiréttur Íslands hefur birt hagsmunaskráningu dómara á vef sínum. Þar kemur meðal annars fram að sex af tíu dómurum Hæstaréttar eru í launuðum aukastörfum og að þrír dómarar eiga eignarhluti í félögum.

Tíu dómarar starfa í Hæstarétti Íslands og þeir eru; Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Helgi Ingólfur Jónsson varaforseti Hæstaréttar, Ingveldur Einarsdóttir - settur hæstaréttardómari, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson, forseti Hæstaréttar.

Nokkrir af dómurunum starfa sem prófdómarar við Háskóla Íslands og margir taka þátt í félagsstarfi. Aðrir eiga hlut í jörðum og sumir eru skuldugir, en aðrir ekki. Fyrir áhugasama er hægt að kynna sér nánar hagsmunaskráningu dómara sem starfa við Hæstarétt hér.

„Hæstiréttur hefur ákveðið að frá byrjun árs 2017 verði aðgengilegar á heimasíðu réttarins upplýsingar um hagsmunatengsl hæstaréttardómara. Við ákvörðun um efni þessara upplýsinga hefur verið tekið mið af því sem dómurum ber að tilkynna nefnd um dómarastörf um samkvæmt fyrirmælum 26. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og reglum settum samkvæmt þeim,“ segir í tilkynningu frá Hæstarétti, sem hægt er að sjá á heimasíðu þeirra.