Bandaríska rafmyntufyrirtækið Bit Digital hyggst auka „námustarfsemi“ sína á Íslandi í ljósi fyrirhugaðrar skattlagningu frá bandarísku ríkisstjórninni. Námuvinnsla á rafmyntum er gríðarlega orkufrek og skyldu áformin ganga eftir yrði fimmtungur námuvinnsluvéla fyrirtækisins hýstur á Íslandi og í Kanada.

Samir Tabar, framkvæmdastjóri Bit Digital, segir í samtali við Wall Street Journal að það sé þegar búið að kaupa 2.500 nýjar námuvélar á tæpar fimm milljónir dali sem fyrirtækið hyggst koma fyrir á Íslandi. Þetta yrði í fyrsta skipti sem fyrirtækið sendir nýjan tölvubúnað sinn út fyrir strendur Bandaríkjanna í tvö ár.

Ríkisstjórn Joe Biden hefur lengi kvartað undan óhóflegri raforkunotkun rafmyntufyrirtækja og segja yfirvöld að slík fyrirtæki hækki raforkukostnaðinn þar sem þau deila sameiginlegu orkuneti með restinni af þjóðinni. Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna sendi frá sér minnisblað í mars sem sagði að rafmyntufyrirtæki ættu að greiða skatt sem nemur 30% af raforkukostnaði.

Skattlagningin er aðeins ein af mörgum aðgerðum sem stjórnvöld beita nú bandarískum rafmyntufyrirtækjum í kjölfar hruns FTX fyrr á árinu. Sum fyrirtæki hafa þar með íhugað að flytja starfsemi sína úr landi. Nokkur fyrirtæki hafa þegar skoðað möguleikana á því að flytja til landa eins og Paragvæ eða Laos.

Framkvæmdastjóri Bit Digital segir meirihluta námuvinnslunnar vera kolefnislaus og myndi aukin starfsemi á Íslandi notast við vatnsafls- og jarðvarmaorku.

Kjarninn greindi frá því á síðasta ári að engar upplýsingar lægju fyrir um hve stór hluti raforkusölu væri nýttur til vinnslu rafmynta hér á landi. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, hafði sent fyrirspurn um málið og í ljós kom að á fimm ára tímabili hafi Orkustofnun, Orka náttúrunnar og HS orka selt gagnaverum 3.915 gígavattstundir af raforku. Samtök iðnaðarins áætla að um helmingur af starfsemi gangavera á Íslandi tengist vinnslu rafmynta.

Landsvirkjun hafði árið 2022 hafnað öllum nýjum beiðnum um raforkukaup vegna rafmynta, bæði til þáverandi viðskiptavina og nýrra fyrirtækja sem höfðu lýst áhuga á að hefja slíka starfsemi á Íslandi.