Björgólfur Thor Björgólfsson er einn af þeim aðilum sem mun koma til með að fjármagna kauptilboð skoska kaupsýslumannsins Pat Munro í skoska knattspyrnufélagið Hearts, samkvæmt heimildum skoska blaðsins The Evening News.

Björgólfur Thor, og fjárfestar frá Mið-Austurlöndum, eru tilbúnir að greiða 45 milljónir punda, eða sex milljarða íslenskra króna, fyrir rúmlega 80% hlut í skoska knattspyrnufélaginu.

Munro staðfesti í gær við The Evening News að núverandi eigandi, Vladimir Romanov, hafi ekki áhuga á að selja félagið.

"Við höfum gert honum (Romanov) tilboð um að taka yfir Hearts," sagði Munro. "Við höfum fólk á bak við okkur frá Íslandi og Mið-Austurlöndum. Fótboltafélagið er efst á listanum, en það er líka möguleiki á byggingarframkvæmdum í tengslum við viðskiptin," segir hann.

Faðir Björgólfs Thors, Björgólfur Guðmundsson, fjármagnaði að hluta til kaup Eggerts Magnússonar á enska knattspyrnufélaginu West Ham.