Björgólfur Thor Björgólfsson hefur færst niður um 58 sæti á milli ára á lista Forbes-tímaritsins yfir auðugustu menn heimsins og er hann nú í 307. sæti en var í fyrra í 249. sæti.

Forbes metur auð Björgólfs á 3,5 milljarða bankaríkjadala, eða um 231,8 milljarða króna, sem er sama upphæð í dollurum talið og hann var sagður eiga í fyrra.

Faðir Björgólfs, Björgólfur Guðmundsson, er einnig á listanum, í sæti 1014, með áætlaðar eignir upp á 1,1 milljarð dala, eða um 72,8 milljarða króna.

Björgólfur Thor komst fyrst á lista Forbes árið 2005 og var jafnframt fyrstur Íslendinga til að hljóta þann sess. Hreppti hann þá 488. sætið og talinn eiga 1,4 milljarða dala. Árið á eftir, 2006, færðist hann hratt upp og fór í 350 sætið, með eignir sem metnar voru á 2,2 milljarða dala. Í fyrra náði hann eins og fyrr segir 249. sætinu með áætlaðar eignir upp á 3,5 milljarða dala.