Það virðast enn til að minnsta kosti tveir menn sem trúa því að skuldasúpa Baugs hafi á einhvern hátt komið Landsbankanum til bjargar, að sögn Björgólfs Thors Björgólfssonar, fjárfestis og eins og af kjölfestufjárfestum gamla Landsbankans. Þessu vísar hann á bug.

„Auðvitað var þarna engin „eign“ Baugs sem Landsbankinn var svo lánsamur að eignast fyrir einhverja galdra, heldur tók bankinn fyrirtækið upp í gríðarlegar skuldir. Þetta var dropi í skuldahaf Baugs,“ að hans sögn.

Skrif Björgólfs birtast á vefsíðunni btb.is í tengslum við umfjöllun hans um bókina Skuggi sólkonungsins , eftir Ólaf Arnarson. Undirtitill bókarinnar er: Er Davíð Oddsson dýrasti maður lýðveldisins?

Á vef Björgólfs stendur um bókina:

„Fullyrðingagleðin ríður ekki við einteyming í bókinni. Þannig tíundar höfundur að margar fjárfestingar Íslendinga í útlöndum hafi verið vel heppnaðar og nefnir fjárfestingar Baugs í eignum á borð við Iceland, Hamley‘s og Magazin du Nord. „Þetta eru eignirnar sem munu borga Icesave,“ skrifar hann og bergmálar þar óvænt ríflega þriggja ára pistil Bubba Morthens.“

Kaupþing var ekki besti bankinn

Björgólfur finnur ýmislegt bókinni til foráttu. M.a. telur hann tuggið á rangindum um söluna á Landsbankanum, þ.e. að nánast engir erlendir peningar hafi komið inn í Landsbankann og Búnaðarbankann við einkavæðingu þeirra. Þá segir hann vanta umfjöllun um það þegar ákveðið var í Seðlabankanum rétt áður en Kaupþing féll að lána bankanum 500 milljónir evra eða sem nam næstum öllum gjaldeyrisvaraforða landsins. Trygging á móti láninu var danski bankinn FIH.

Hann skrifar:

„Þess í stað er oftar en einu sinni vikið að því að Kaupþing hafi verið bestur bankanna og stjórnendur þess banka hæfastir.  Þar læðist aldrei efi að, sem í sjálfu sér er áhugaverðast við bók sem kemur út hátt í sex árum eftir hrun. Höfundur bókarinnar Skuggi sólkonungs er vitanlega ekki sá fyrsti sem fellur í þá gryfju að hafa það sem betur hljómar. Það kemur þó spánskt fyrir sjónir að sá sem gjarnan vill teljast marktækur sem álitsgjafi skuli ekki gæta þess að fara rétt með staðreyndir, enda rýra augljós ósannindin bókina í heild. Að lesa hana er svipað og að horfa á kvikmyndina Groundhog Day.“