Björgólf­ur Thor Björgólfs­son fjárfestir vill fá af­sök­un­ar­beiðni frá Ríkisútvarpinu vegna um­fjöll­un­ar um hóp­mál­sókn gegn hon­um í Kast­ljós­inu þriðjudaginn 23. júní. Björgólf­ur hef­ur sent stjórn Ríkisútvarpsins bréf þar sem hann sak­ar Kastljós um að hafa brotið lög um Ríkisútvarpið.

Björgólfur segir frá þessu á heimasíðu sinni . Hann segir í niðurlagi bréfsins til stjórnarinnar að umfjöllun Kastljóss hafi verið meiðandi og til þess fallin að valda honum miklu tjóni. Björgólfur segir að með því að hunsa eigin reglur hafi Ríkisútvarpið tekið að sér að birta einhliða alvarlegar ásakanir í sinn garð og látið dómstóli götunnar eftir að dæma í máli sem dómstólar hafi ekki fjallað um.

Hann segir í bréfinu að lögmaðurinn Jóhannes Bjarni Björnsson hafi fengið nægan tíma í Kastljósi til að bera á hann ýmsar sakir án þess að nokkur tilraun væri gerð til að andmæla þeim eða spyrja ítarlegar út í fullyrðingar hans. Hann segir að ef hann hefði fengið færi á að svara þá hefði hann t.d. getað sýnt fram á með gögnum að fullyrðingar um að lán til hans hafi numið 50% af eiginfjárgrunni Landsbankans eru úr lausu lofti gripnar.

Í bréfi sínu segir Björgólfur:

„Vinnubrögðin í þessu tilviki voru ekki fagleg, sanngirni og hlutlægni látin lönd og leið, svo sannarlega var ekki leitað upplýsinga frá báðum aðilum og því fór fjarri að sjónarmið væru kynnt sem jafnast. Og hvað heimildir varðar þá hef ég áður nefnt rangfærslur lögmannsins. Þær hefði ég getað hrakið í þættinum, hefði RÚV gefið mér færi á því.“