Bluebird Cargo hefur gert samstarfssamning við Emirates Sky Cargo, stærsta fraktflugfélag heims, um flugfrakt milli Íslands og yfir 100 borga um allan heim.

Fram kemur í tilkynningu að samningurinn geri Bluebird Cargo kleift að bjóða íslenskum inn-og útflytjendum að tengjast flugneti Emirates Sky Cargo í Dublin á Írlandi, en Bluebird flýgur þangað hvern virkan dag. Emirates Sky Cargo, sem er frakthluti Emirates flugfélagsins, flýgur til 144 áfangastaða í 81 landi um tengiflugvöll sinn í Dubai. Emirates flýgur tvisvar á dag á milli Dublin og Dubai á Boeing 777 breiðþotu.

Magnús H. Magnússon, sölustjóri Bluebird Cargo, segir nýja samkomulagið gera fyrirtækinu kleift að bjóða íslenskum inn-og útflytjendum alveg nýja flutningsmöguleika á hagstæðum kjörum, þar sem varan kemst hratt og örugglega á milli og hægt er að tryggja góða vörumeðhöndlun alla leið. Þar sem Bluebird flýgur eingöngu fraktflugvélum er hægt að tryggja að varan sé á sama vörubrettinu og í gámum alla leið, enda sé öll frakt með Emirates flutt í gámum. Þá sé jafnframt hægt að tryggja ákveðið hitastig alla leið, sem er mjög þýðingarmikið fyrir flutninga á fiski, lyfjum og grænmeti.

Fyrir er Blubird Cargo með samstarfssamninga við UPS Cargo og Air Lingus m.a. til Ameríku og getur því með tilkomu þessa nýja samnings boðið enn þéttriðnara net fyrir flugfrakt milli Íslands, Evrópu og um allan heim. Með þessari viðbót, styrkjast tengingar til og frá Asíu alveg sérstaklega, en einnig Afríku og Eyálfu.