George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, boðar 11,5 milljarða punda niðurskurð á ríkisútgjöldum á árunum 2015 til 2016. Markmiðið er að draga úr hallarekstri hins opinbera. Breska ríkisútvarpið (BBC ) segir niðurskurðarhnífinn sneiða fram hjá heilbrigðis- og menntakerfinu auk þess sem ekki verði dregið úr þróunaraðstoð. Á sama tíma verður auknu fjármagni veitt til uppbyggingu innviða, s.s. til vegagerðar, til járnbrauta og íbúðamála.

BBC segir jafnframt að niðurskurðaráætlunin njóti stuðnings þingmanna úr öðrum flokkum og hafi þingmenn úr Verkamannaflokknum sagst ætla að fylgja henni nái flokkurinn völdum í næstu þingkosningum.

Osborne ætlar að mæla fyrir niðurskurðaráætluninni á breska þinginu um hádegisbil í dag.