*

sunnudagur, 19. september 2021
Erlent 15. desember 2020 08:02

Borgar sig að lesa tölvupóstinn

Fjölmargir gestgjafar Airbnb sjá eftir að hafa ekki lesið tölvupóst frá fyrirtækinu sem hefði getað skilað þeim ríkulegum hagnaði.

Ritstjórn
Gengi hlutabréfa Airbnb ríflega tvöfaldaðist á fyrsta viðskiptadegi.
epa

Airbnb veitti gestgjöfum sínum, það er einstaklingum sem leigja eignir sínar út í gegnum fyrirtækið, tækifæri á að fjárfesta í hlutabréfum fyrirtækisins í aðdraganda hlutafjárútboðs þess á dögunum.

Gátu gestgjafar þannig fjárfest í allt að tvö hundruð hlutum á genginu 68 dollarar á hlut, en  gengi bréfanna ríflega tvöfaldaðist á fyrsta viðskiptadegi og við lokun markaða þann daginn var gengi bréfanna 145 dollarar á hlut.

Þúsundir gestgjafa fengu boð um hlutabréfakaupin með tölvupósti og naga margir þeirra sig í handarbökin yfir að hafa ýmist ekki lesið tölvupóstinn eða láðst að ganga frá kaupum áður en frestur til þess rann út.

NPR ræddi við nokkra svekkta gestgjafa sem sáu mikið eftir vannýttu tækifæri. Einhverjir lásu einfaldlega ekki póstinn og benti einn þeirra á að titill skilaboðanna hefði verið óspennandi. Aðrir höfðu lesið póstinn og jafnvel ætlað sér að fjárfesta, en biðu með það og gleymdu að aðhafast áður en frestur var liðinn.

Einnig var rætt við gestgjafa sem nýtti tækifærið og fjárfesti í hlutabréfunum. Sá seldi öll bréfin á fyrsta viðskiptadegi á genginu 144 dollarar á hlut og hagnaðist um tæplega 15 þúsund dollara, sem samsvarar um 1,9 milljónum króna. Það borgaði sig því ágætlega fyrir marga að lesa tölvupóstinn frá Airbnb þó titill hans væri óspennandi.

Sjá einnig: Bréf Airbnb tvöfaldast á fyrsta degi

Stikkorð: Airbnb