Borgarráð hefur samþykkt að vísa tillögu um kaup Reykjavíkurborgar á Perlunni af Orkuveitunni til borgarstjórnar næstkomandi þriðjudag. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Kaupverð Perlunnar er 950 milljónir króna en viðræður eru í gangi um að leigja hluta hússins fyrir náttúruminjasafn. Sá samningur er ein forsenda þess að borgin kaupi Perluna en fjárlaganefnd hefur lagt til að 400 milljónum króna yrði varið í slíkt verkefni.

Í tillögu Jóns Gnarr borgarstjóra er gert ráð fyrir að ríkið leigi húsið í allt að 15 ár og komi þar upp sýningu. Einnig kemur fram að borginni verði heimilað að gera breytingar á Perlunni fyrir allt að 100 milljónum króna.