*

fimmtudagur, 6. ágúst 2020
Erlent 5. september 2019 15:04

Boris ýtir á þingkosningar sem fyrst

Án kosninga fyrir 19. október neyðist forsetisráðherra Bretlands til þess að biðja um frest á útgöngu úr ESB.

Ritstjórn
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
epa

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, heldur ræðu seinna í dag þar sem hann mun ýta eftir því að þingið samþykki þingkosningar sem fyrst. Ef Boris tekst ekki að tryggja að kosið verði fyrir 19. október neyðist hann til þess að biðja um frest á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Annað varðar við brot á lögum sem stjórnarandstaðan með stuðningi uppreisnarmanna úr hópi Íhaldsflokksins tókst að koma í gegnum þingið eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um.

Boris fundaði í dag með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sem kom í stutta heimssókn í gær til Íslands eftir heimsókn sína til Írlands. Þar var rætt fríverslunarsamning milli Bretlands og Bandaríkjanna, en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Íslands lýsti yfir áhuga á slíkum samningi milli Íslands og Bretlands.

Í viðræðum varaforsetans og forsætisráðherrans lagði Boris áherslu á að allt verði gert til þess að tryggja frjálsa verslun og sagði Pence að Bandaríkin væru bæði tilbúin og geta boðið Bretlandi fríverslunarsamning. Bloomberg segir frá.

Bróðir Boris, Jo Johnson, er einn þeirra sem hefur ákveðið að snúast gegn Íhaldsflokknum í kjölfar einarðrar stefnu bróður síns Boris um að Bretland gangi úr Evrópusambandinu, með eða án samnings. Hann hefur verið þingmaður flokksins síðan árið 2010 en hefur nú sagt upp þingstörfunum vegna samstarfsörðugleika milli þeirra bræðranna.

Jo Johnson hefur lengi vel verið talsmaður þess að Bretland haldist innan Evrópusambandsins og hætti hann meðal annars sem ráðherra á sínum tíma því hann styður að haldin verði önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um útgönguna.