*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 12. maí 2018 12:01

Börnin tekin við Pétursbúð

Verslunin Pétursbúð hefur verið í eigu hjónanna Bjarkar og Baldvins Agnarssonar undanfarin tólf ár en reksturinn er meira og minna í höndum barnanna þeirra tveggja.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Ég held það séu ekki nema þrjár svona verslanir eftir í bænum,“ segir Björk Leifsdóttir, annar eigandi Pétursbúðar við Ránargötu, en verslunin er meðal elstu verslana í Reykjavík. Verslunin hefur verið í eigu hjónanna Bjarkar og Baldvins Agnarssonar undanfarin tólf ár en daglegur rekstur er nú meira og minna í höndum barnanna þeirra tveggja, Elínar Daggar Baldvinsdóttur og Hákonar Baldvinssonar.

„Þau eru þarna á daginn, þetta er samheldin fjölskylda þar sem allir reyna að vinna saman,“ segir Björk. Í ársreikningi fyrir verslunina fyrir síðasta ár sést að rekstur verslunarinnar er nokkuð þungur og er eigið fé félagsins neikvætt um 6,6 milljónir. Engu að síður hefur rekstur Pétursbúðar skilað hagnaði undanfarin ár – um 4,3 milljónum í fyrra og 7,2 milljónum árið 2016. „Þetta er auðvitað svakaleg vinna nánast allan sólarhringinn.“ Húsið var byggt fyrir sléttum 90 árum og hefur alla tíð verið nýtt sem verslunarhúsnæði. Björk segir þau vera fimmtu eigendur verslunar í húsinu.

„Það voru upphaflega þrjár verslanir í þessu litla 100 fermetra rými – mjólkurbúð, fiskbúð og kjörbúð. Maður fær að heyra af því hjá gamla fólkinu.“ Björk er Vestfirðingur og segist í raun ekki hafa vitað af tilvist búðarinnar skömmu áður en þau ákváðu að kaupa hana. „Þetta kom bara óvart upp í hendurnar á okkur. Við ætluðum að fara út í þetta með annarri konu sem hætti við. Þá kýldum við á þetta og fórum bara í þetta tvö.“ Baldvin starfaði þó aldrei í versluninni en hefur alla tíð haldið utan um bókhaldið. „Ég var þarna allan sólarhringinn. Það er náttúrulega opið til hálftólf öll kvöld.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.