*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Erlent 20. janúar 2020 13:37

Brautin rudd fyrir mannaðar ferðir SpaceX

Eftir vel heppnað öryggispróf geimferðafyrirtækisins SpaceX stendur til að næsta flugtak þess verði mannað.

Júlíus Þór Halldórsson
Elon Musk, sem er best þekktur sem framkvæmdastjóri rafbílaframleiðandans Tesla, er einnig framkvæmdastjóri geimferðafyrirtækisins SpaceX.

Bandaríska geimferðafyrirtækið SpaceX gæti hafið mannaðar geimferðir á þessu ári eftir að öryggispróf, sem fól í sér að herma eftir flugtaki sem fer úrskeiðis, gekk eins og í sögu.

Eftir að slökkt var á vélum eldflaugarinnar sem knúði Crew Dragon farþegahylkið (e. passenger capsule) losaði það sig frá henni og knúði sig sjálft í örugga fjarlægð, og opnaði í kjölfarið fallhlífar sínar yfir Atlantshafinu, hvar það lenti óhult og var sótt.

Eldflaugin sjálf – sem var af gerðinni Falcon 9 – var full af eldsneyti sem kveikti í henni fljótlega eftir aðskilnaðinn frá hylkinu, en SpaceX hafði gert ráð fyrir eyðileggingu hennar.

Samkvæmt framkvæmdastjóra SpaceX, ævintýra- og athafnamanninum Elon Musk, ver hitaskjöldur farþegahylkisins það og farþega þess jafnvel ef eldflaugin springur meðan þau eru enn samtengd. Farþegahylkið var mannlaust, en tvær snjallgínur voru um borð sem söfnuðu gögnum um hugsanleg áhrif ferlisins á farþega, sem myndu upplifa þónokkuð mikið álag við hröðunina.

Prófið var gert í samstarfi við geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, sem SpaceX mun meðal annars ferja geimfara fyrir til alþjóðlegu geimstöðvarinnar (e. International space station).

Sem fyrr segir stendur til að næsta skipti sem eldflaug SpaceX verður skotið á loft verði mennskir farþegar um borð, en það verða geimfarar á vegum NASA. Enn hefur þó ekki verið tilkynnt um hvenær sú ferð verði farin.

Umfjöllun The Verge.

Stikkorð: Elon Musk SpaceX