Starfsmenn einkageirans í Bretlandi leita nú í sívaxandi mæli að störfum hjá hinu opinbera þar sem þau þykja, þrátt fyrir lægri laun, vera öruggari en önnur um þessar mundir.

Þetta kemur fram í umfjöllun breska blaðsins The Daily Telegraph um vinnumarkaðinn í Bretlandi.

Í nýrri könnun sem unnin var fyrir blaðið kemur fram hátt í 75% starfandi einstaklinga, sem starfa hjá einkafyrirtækjum, getu vel hugsað sér að fá vinnu hjá hinu opinbera þrátt fyrir að lækka í launum. Um helmingur þeirra sem svöruðu könnuninni eru alvarlega að íhuga það að leita sér að vinnu hjá hinu opinbera.

Telegraph segir tölurnar í raun ekki koma á óvart þar sem um 600 þúsund manns hafi misst vinnuna á síðasta ári, að mestu í einkageiranum, og talið er að fleiri muni missa vinnuna á næstu mánuðum.

Af þeim sem sögðust tilbúnir til að leita frekar eftir störfum hjá hinu opinbera sögðu 73% starfsöryggi vera helstu ástæðuna og sögðust í leiðinni meta það meira en tekjurnar. Þá nefndu 37% aðspurðra að hið lífeyriskerfi opinberra starfsmanna væri eitthvað sem heillaði en líkt og hér á landi nýtur það kerfi ríkisábyrgðar.

Tekjulækkun þarf þó ekki endilega að vera helsta áhyggjuefni þeirra sem myndu færa sig og hefja störf hjá hinu opinbera. Samkvæmt nýrri skýrslu félags skattgreiðanda í Bretlandi, TaxPayers' Alliance eru nú greidd hærri laun á opinberum vettvangi en í einkageiranum og hafa samtökin, eins og nafnið gefur til kynna, gagnrýnt það mjög.

Þannig segja samtökin að á árinu 2008 hafi meðal árslaun hjá hinu opinbera verið um 21.400 Sterlingspund á meðan meðalárslaun hjá einkaaðilum var um 20.700 pund.