Útgerðarfyrirtækið Brim hefur keypt orkustjórnarkerfi frá nýsköpunarfyrirtækinu Marorku. Kerfið verður innleitt í skipum Brims og kemur til með að lágmarka olíunotkun þeirra við fiskveiðar og gera þær hagkvæmari. Þeir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, og dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Marorku, undirrituðu samninga þessa efnis í dag. Með samningnum er Brim fyrsta útgerðin hér á landi sem innleiðir heildstæða og markvissa orkustjórnun.

Haft er eftir Guðmundi í tilkynningu að útgerðin hafi alltaf lagt mikla áherslu á að stunda hagkvæmar og umhverfisvænar veiðar.

„Við trúum því að með því að fjárfesta í nýjum skipum og bestu tækni sem völ er á hverju sinni náum við aukinni hagkvæmni og göngum þannig betur um auðlindina. Við höfum fylgst lengi með Marorku og þeirra þróunarvinnu við orkustjórnun skipa og erum mjög spenntir fyrir því að innleiða þessa tækni í okkar skip núna,“ segir Guðmundur.