Bifreiðaumboðið Brimborg freistar þess að fá að skila lóð sinni við Lækjarmel 1 í Reykjavík. Að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar, hefur afgreiðslu málsins verið frestað en hann segist bjartsýn á að málið nái fram að ganga.

Í fundargerð borgarráðs frá 18. des. segir:

12. Lögð fram yfirlýsing Brimborgar ehf. frá 9. október sl. varðandi skil á lóðinni nr. 1 við Lækjarmel, ásamt bréfum Lögfræðiskrifstofu Reykjavíkur frá 12. f.m. og 1. þ.m., og tölvubréfi sama aðila frá 12. s.m. Jafnframt lagðar fram umsagnir skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 12. og 15. þ.m., þar sem lagt er til að synjað verði um skil á lóðinni. R08100288 Frestað.

Egill segir því ljóst að borgarráð hafi ekki enn fjallað efnislega um mál Brimborgar. Til upplýsingar þá er málið í hnotskurn á þessa leið.

Brimborg sótti um lóðina Lækjarmel 1 og fékk úthlutað 16. febrúar 2006. Gatnagerðargjöld voru greidd kr. 113 milljónir. Lóðin átti að hýsa framtíðarstaðsetningu atvinnutækjasviðs Brimborgar vegna síaukinnar starfsemi og var skipulagsvinnu Brimborgar lokið og einnig frumhönnun. ,,Áætlunum Brimborgar var lýst nákvæmlega í lóðaumsókn Brimborgar á sínum tíma til Reykjavíkurborgar skv. þeim skilmálum sem gilda við lóðarúthlutanir og er fyrirtækjum skylt skv. þeim sömu skilmálum að fara eftir þeim áformum eða skila úthlutaðri lóð ella. Ekki er um það að ræða að Brimborg hafi greitt sérstakt lóðarverð fyrir lóðina heldur voru eingöngu greidd gatnagerðargjöld eins og lög segja til um enda um lóðarúthlutun að ræða," sagði Egill.

,,Eftir hrun bankakerfisins er ljóst að umsvifin á markaði fyrir atvinnutæki eru aðeins brot af því sem var þá og hægt var að reikna með. Því eru forsendur brostnar sem lagðar voru fyrir Reykjavíkurborg þegar sótt var um lóðina. Skil lóðarinnar eru því hluti af þeim niðurskurðaraðgerðum sem Brimborg hefur farið í gegnum og eru m.a. til að vernda eins mörg af þeim 200 störfum sem eru í Brimborg. Lóðaskilin eru auðvitað í samræmi við lög."

Hann sagði engan vafa vera á að sveitarfélagi beri að endurgreiða gatnagerðargjald innan 30 daga ef lóðarúthlutun er afturkölluð eða ógilt eða lóð er skilað. Sama gildir um gatnagerðargjald sem lagt hefur verið á í tengslum við samþykkt byggingarleyfis, sbr. b-lið 2. mgr. 3. gr., en í þeim tilvikum skal endurgreiða gatnagerðargjaldið innan 30 daga frá því að byggingarleyfishafi hefur sannanlega krafist greiðslu. Fjárhæð gatnagerðargjalds sem greidd var skal verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags. Við greiðsludrátt reiknast dráttarvextir á fjárhæðina samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga.

Brimborg sendi því inn bréf þann 9. okt. síðastliðinn og skilaði lóðinni með tilvísun í fyrrgreind lög og í samræmi við verklag sem hefur viðgengist hjá Reykjavíkurborg í þessum málum í áratugi en farið var að leiðbeiningum starfsmanna borgarinnar í þessu efni. Skv. lögunum hefur Reykjavíkurborg 30 daga til að endurgreiða. Að loknum þeim fresti barst félaginu ekki endurgreiðslan. Þá ítrekaði Brimborg en engin svör fengust fyrr en í kjölfar borgarráðsfundar 20. nóvember þ.e. 41 degi eftir að Brimborg skilar inn lóðinni.

,,Niðurstaða þess fundar var að breyta reglum afturvirkt sem þykir undarleg ráðstöfun og ekki í samræmi við góða stjórnsýslu. Borgarráð hefur síðan ekki heimild til að breyta lögum," sagði Egill.

Það er Alþingis að sjá um þau mál. Í kjölfar ákvörðunar borgarráðs berst bréf til Brimborgar frá Ágústi Jónssyni, skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs, þar sem almennt er hafnað því að hægt sé að skila lóðum einhliða nema að fengnu samþykki borgarráðs. Egill telur þessa niðurstöðu í ósamræmi við verklag sem unnið hefur verið eftir hjá borginni í áratugi og í ósamræmi við lög.