Bryndís Hlöðversdóttir tók í dag formlega við stöðu rektors Háskólans á Bifröst.

Ennfremur urðu breytingar á stjórn Háskólans. Hrafnhildur Stefánsdóttir stjórnarformaður sagði sig úr stjórn og tilnefndu Samtök Atvinnulífsins Guðstein Einarsson í hennar stað. Hann var kjörinn stjórnarformaður á stjórnarfundi í dag. Jón Ólafsson, prófessor og forseti Félagsvísindadeildar, er nýr aðstoðarrektor skólans.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Háskólanum á Bifröst.

Úr fréttatilkynningu:

Í innsetningarræðu sinni fjallaði Bryndís um hlutverk háskóla á Íslandi, sérstöðu og mikilvægi þeirra í þjóðfélagsumræðu, sérstaklega á tímum eins og nú.

„Háskólafólk má ekki óttast að tjá sig um málefni líðandi stundar“.

Hlutverk háskólafólks væri einnig að hafa áhrif á það siðferði sem verður til í nýju umhverfi upplýsingaflæðis með tilkomu samskiptaleiða á borð við Facebook og upplýsingagátta á borð við Wikileaks.

„Við getum haft áhrif á það hvort lekinn leiði til þess að leyndin verði enn meiri, eða hvort hann leiði til þess að við tökum í ríkara mæli ákvarðanir sem þola dagsljósið“.

Bryndís kom einnig inn á umræðu um sameiningarmál á háskólastigi:

„Sameining háskólanna má ekki verða markmiðið sjálfrar sín vegna, hagræðing og skynsöm nýting á opinberum fjármunum til skólanna á að vera markmið, samhliða eflingu háskólastigsins sem slíks. Að niðurstaðan verði öflugri háskólar en við höfum í dag, ekki bara að skólarnir verði færri“.

„Við Íslendingar þurfum vissulega að sníða okkur stakk eftir vexti en í þessum efnum sem öðrum – en við þurfum einnig að gæta þess að standa vörð um sérstöðu skólanna og að falla ekki í þá gryfju að gera háskólana að fjöldaframleiðslueiningum, þar sem allir eru steyptir í sama mót“.

Að lokum þakkaði hún fyrrverandi nemendum skólans, Hollvinum, fyrir þann mikla stuðning sem þeir hafa sýnt á síðustu misserum. „Slíkur stuðningur er ómetanlegur og verður seint þakkaður“.