Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur þingmenn Bjartrar framtíðar hafa staðið sig best stjórnarandstæðinga á þessu kjörtímabili. Þetta segir hann í stöðuuppfærslu á Facebook .

„Samkvæmt skoðanakönnunum hefur fylgi Bjartrar Framtíðar dalað mjög. Ekki er ég stuðningsmaður BF. Hvað sem um þingmenn BF má segja finnst mér þeir hafa staðið sig hvað best stjórnarandstæðinga,“ skrifar Brynjar.

Brynjar segir þingmenn Bjartrar framtíðar duglega í störfum þingsins, samkvæma sjálfum sér og umfram flesta stjórnarandstæðinga hafi þeir skilning á þingræðinu. „Það er mikilvægt á síðustu og verstu tímum,“ segir hann.

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður leggur orð í belg við stöðuuppfærsluna og segir hana vera „kiss of death“, eða koss dauðans, frá Brynjari. Hann tók hins vegar vel í athugasemd Sveins og segist næst ætla að hrósa Viðreisn.