*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 10. júní 2021 19:05

Búast við hundruð milljarða áskriftum

Upphæð áskrifta og fjöldi hluthafa í Íslandsbanka verði að líkindum sá mesti frá hruni. Ljóst er að skerða þarf mörg tilboð verulega.

Júlíus Þór Halldórsson
Birna Einarsdóttir er bankastjóri Íslandsbanka.
Eyþór Árnason

Búist er við að hluthafar í Íslandsbanka muni telja tugi þúsunda eftir að útboði á 25-35% hlut í honum lýkur í næstu viku. Er það mesti fjöldi hluthafa í íslensku félagi frá því fyrir hrun. 

Þegar eru merki um gríðarlega umframeftirspurn í útboðinu, sem gæti skilið fagfjárfesta eftir með mun minna en þeir hefðu viljað. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins búast við mjög mikilli þátttöku einstaklinga í útboðinu. 

Lágmarksupphæð er aðeins 50 þúsund; helmingur þess sem hún var í nýlegum útboðum Icelandair og Síldarvinnslunnar. 

Leitast verður við að uppfylla allar áskriftir upp að einni milljón króna óskertar, auk þess sem hornsteinsfjárfestar munu fá tæpan þriðjung útboðinna hluta í sinn hlut. 

Að kvöldi mánudags, fyrsta dags útboðsins, var sagt frá því að þegar hefðu borist áskriftir fyrir allri upphæð útboðsins ásamt viðbótarheimild, og heimildarmenn blaðsins búast við að þegar upp er staðið muni eftirspurnin hlaupa á hundruðum milljarða. 

Umframeftirspurn veldur tilboðskapphlaupi

Því sem eftir er verður svo úthlutað til annarra fagfjárfesta, sem gætu þurft að slást nokkuð hart um bréfin, en þeirra á meðal eru bæði fjársterkir innlendir aðilar og að öllum líkindum þónokkuð um erlenda aðila. Búist er við því að margir muni grípa til þess ráðs að bjóða í mun stærri hlut en þeir sækjast raunverulega eftir – vitandi að líklega verði talsvert mikil skerðing á því sem þeir enda á að fá – til að freista þess að sitja uppi með svipað magn og þeir vildu. 

Gefið hefur verið út að áskrifendur verði líklegir til að fá stærri hlut, skrái þeir sig fyrr fyrir honum, og einnig ef þeir bjóða hærra frekar en lægra verð. Lokaorðið er hins vegar alfarið hjá seljanda – Bankasýslu ríkisins – sem getur valið og hafnað einstökum aðilum að vild. 

Ýmislegt gæti þannig komið til álita, svo sem hvort æskilegt sé að taka tilboðum aðila sem metnir væru líklegir til að hugsa fjárfestinguna til lengri tíma og bæta við sig á seinni stigum. Þá gætu erlendir aðilar verið meðhöndlaðir öðruvísi. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Íslandsbanki