Lee Buchheit hefur helgað líf sitt starfi við endurskipulagningu og samningaviðræður um skuldir þjóðríkja. Hann segir að þó að starfið sé gefandi, krefjandi og skemmtilegt fylgi því sá ókostur að kvaðning frá þjóð í vanda komi fyrirvaralaust. Það sé því ekki í boði að segjast vera á leið í frí í laxveiði á Íslandi, sem hann kveðst vera mjög spenntur fyrir.

„Mér var boðið í veiði hingað árið 2011. Ég var búinn að pakka öllu veiðidótinu en þá hringdi fjármálaráðherra Grikklands í mig. Það gerði út af við veiðiferðina og ég er reyndar búinn að missa úr þrjú ár í veiði núna.“

Sérðu fyrir þér að koma hingað aftur?

„Já, ef ekki á þessu ári þá alveg örugglega á því næsta. Eins og ég segi, þá hangir það alltaf á vinnunni. Þegar ég fæ símtalið þá veit ég að það er vegna þess að einhver er kominn út á bjargbrúnina. Þá er erfitt að segja: „Því miður, ég er að fara í frí!“ segir hann og brosir.

„Mér þykir orðið mjög vænt um Ísland. Þið eruð búin að ganga í gegnum afskaplega erfitt tímabil, en ég finn það á mér að þið eigið eftir að jafna ykkur betur og hraðar en nokkur hefði getað ímyndað sér í upphafi. Þannig að ef ekkert fer verulega úrskeiðis í heiminum þá held ég að árið 2016 verði það ár sem efnahagsbatinn skýtur sterkum rótum á Íslandi. Ég veit að það er mikill áhugi fyrir fjárfestingu hérna, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.“

Lee Buchheit er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .