Ekki hefur farið framhjá neinum að hálfgert upplausnarástand ríkir í Grikklandi um þessar mundir. Grísk yfirvöld hafa skilað tillögum að úrbótum sem eiga að miða að niðurskurði í ríkisfjármálum sem nemur um þrettán milljónum evra. Bankar eru lokaðir í Grikklandi og grískur almenningur getur ekki tekið úr reiðufé úr hraðbönkum fyrir meira en 60 evrur eða um 9.000 íslenskar krónur.

Til marks um hvað ástandið er slæmt eru Grikkir farnir að flykkjast í verslanir og kaupa munaðarvörur í auknum mæli. Ástæðan er sú að þeir telja margir hverjir að sparifé sínu sé betur varið í slíkum varningi en á bankabók.

Financial Times greinir einnig frá því að í ljósi þess hve óljós framtíð Grikkja er í evrusvæðinu eru margir Grikkir farnir að taka á móti greiðslum í ýmsum öðrum gjaldmiðlum en evrunni. Þeirra á meðal er búlgarskt lev og tyrknesk líra.

„Það er ekkert að því að taka á móti búlgörsku levunni vegna þess að það er stöðugur gjaldmiðill sem er festur við gengi evrunnar,“ er haft eftir Athanasos Kritsinis sem rekur verslunakeðju í Grikklandi. „Þetta er löglegt þannig að það er engin ástæða til að taka ekki á móti henni. Við eigum við alvarlegan lausafjárvanda að stríða í Grikklandi þannig að þetta er ein leið til að fá meira laust fé í landið.“