Í dag veitti Héraðsdómur Reykjavíkur húsnæðissamvinnufélaginu Búmönnum heimild til greiðslustöðvunar til 5. júní n.k., svo freista megi þess að ná nýrri skipan á fjármál félagsins, sem varð illa úti í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Búmenn eiga nú 541 íbúð í 13 sveitarfélögum og eru um 93 prósent í notkun. Stærstur hluti íbúðanna, eða um 90 prósent þeirra, eru á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrannasveitarfélögum (Reykjanes, Hveragerði og Akranesi). Greiðslustöðvunin mun ekki hafa áhrif á réttindi eða skyldur búseturétthafa Búmanna og rétt þeirra til áframhaldandi búsetu í fasteignum sínum, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Aðstoðarmaður félagsins í greiðslustöðvuninni er Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður á lögmannsstofunni Lex.

Í tilkynningunni segir jafnframt:

„Við hrun fjármálakerfisins haustið 2008 var fjárhagur Búmanna í föstum skorðum en á næstu misserum eftir hrunið jukust vanskil búseturétthafa. Til viðbótar við vanskil jukust umtalsvert uppsagnir á búsetusamningum, þar sem félagið var með innlausnarskyldu. Saman leiddi þetta til vaxandi fjárhagsörðuleika Búmanna sem stjórn og starfsmenn hafa leitast við að leysa úr, meðal annars í samstarfi við Íbúðalánasjóð, aðallánveitanda félagsins.

Auk þess að hafa leitað aðstoðar lögmannsstofunnar LEX hafa Búmenn leitað til endurskoðunarstofunnar KPMG. Hlutverk þessara ráðgjafa var að greina lagalega og fjárhagslega stöðu félagsins og kynna möguleg úrræði til úrbóta. Að fenginni greiningu og ráðgjöf þessara aðila varð það niðurstaða stjórnar Búmanna að rétt væri, áður en lengra yrði haldið, að fá heimild til greiðslustöðvunar í þeim tilgangi að tryggja að unnt yrði að undirbúa og ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins, í formlegu og lögbundnu ferli þar sem jafnræði kröfuhafa væri tryggt þar á meðal til upplýsinga og þátttöku.

Það er trú þeirra sem unnið hafa að lausn á vanda Búmanna að greiðslustöðvunin sé mikilvægur og nauðsynlegur þáttur í því mikilvæga verkefni að endurreisa fjárhag félagsins og styrkja starfsemi þess til framtíðar til hagsbóta fyrir félagsmenn, búseturétthafa og lánveitendur.“