Burger King hefur keypt kandadísku kleinuhringjakeðjuna Tim Hortons og er búist við að gengið verði endanlega frá sameiningu fyrirtækjanna tveggja í næstu viku.

Hluthafar í Tim Hortons munu greiða atkvæði á sérstökum hluthafafundi á þriðjudag, en stjórn fyrirtæksins hefur þegar samþykkt samninginn einróma. Fyrirtækin greindu frá því í gær að kanadísk stjórnvöld hefðu heimilað samrunann, en bandarísk stjórnvöld höfðu þegar samþykkt hann.

Burger King skuldbindur sig til að halda sama starfsmannafjölda á Tim Hortons stöðum í Kanada og til þess að breiða út keðjuna um Bandaríkin og á heimsvísu. Burger King Worldwide ákvað að kaupa Tim Hortons í ágúst og í næstu viku verður sameinað fyrirtæki þriðja stærsta skyndibitafyrirtæki heims.

Hlutabréf í Burger King hafa hækkað um 5,5% eftir tíðindin, en þau hafa hækkað um 52% á þessu ári.