Vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management DCA hefur verið umfangsmikill fjárfestir á Íslandi frá hruni og var nýverið metinn hæfur til þess að fara með fullan eignarhlut í fjármálafyrirtækinu Lýsingu í gegnum eignarhald sitt á Klakka. Morgunblaðið kannaði ársreikning sjóðsins fyrir árið 2015 og komst að því að hann sé með 2.624 dollara í eigin fé og að hlutafé í félaginu sé enn minna, eða 3 hlutir að nafnverði 1 dalur hver, eða samtals 350 krónur.

Einnig er félagið skilgreint sem góðgerðafélag á Írlandi samkvæmt rekstrarreikningnum frá árinu 2015.

Aftur á móti eru fjármálaumsvif Burlington Loan Management „stjarnfræðileg“ að mati Morgunblaðsins og er nefnt að skuldir félagsins nema rúmum 8 milljörðum dollara, eða um 935 milljörðum króna og eignir félagsins eru nánast þær sömu. Mismunurinn er fyrrgreint eigið fé. Hagnaður Burlington nam 375 dollurum árið 2015 og hagnaðurinn var sá sami árið áður, eða um 44 þúsund íslenskar krónur.

Burlington er írskt skúffufyrirtæki bandaríska vogunarsjóðsins Davidson Kempner í New York og eru eitt af þeim fyrirtækjum sem eru skráð hjá aflandsþjónustu Deutsche International Finance á Írlandi að því er kemur fram í umfjöllun The Irish Times frá því í fyrra.