George Bush eldri, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, gagnrýnir tvo helstu samstarfsmenn George Bush yngri í nýrri ævisögu sem kemur út í næstu viku. New York Times fjallar um bókina.

Í bókinni, sem nefnist „Destiny and Power: The American Oddysey of George Herbert Walker Bush" , segir Bush að Dick Cheney varaforseti og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra hafi gert Bush yngra mikið ógagn með harðlínustefnu í utanríkismálum og viðbrögðum þeirra eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001.

Bush segir að Rumsfeld hafi verið hrokafullur náungi sem hafi skaðað son sinn í embætti. Þá segir hann að sá Cheney sem var varaforseti hjá Bush yngri, hafi verið gjörólíkur þeim Cheney sem hann sjálfur þekkti.

Cheney var varnarmálaráðherra í stjórn Bush eldri 1989-1993.