Silicor Materials sem hyggst reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga hefur fengið samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) fyrir byggðaaðstoð. Verður aðstoðin í formi skattahagræðis og ívilnandi reglna um leigu og fyrningu og er hún að andvirði 4,640 milljarða íslenskra króna.

Hagræðið verður að vega þyngra en samkeppnisröskun

Til þess að byggðaaðstoð sem þessi hljóti samþykkis eftirlitsstofnunarinnar verður viðeigandi EFTA ríki að sýna fram á að hin fyrirhugaða aðstoð sé viðeigandi, sé stillt í hóf og stuðli að efnahagslegri uppbyggingu á svæðinu. Jafnframt þarf hagræðið af henni að vega þyngra en möguleg samkeppnisröskun.

Niðurstaða ESA er að aðstoðin fyrirhugaða hafi hvatningaráhrif þar sem ekki hefði verið ráðist í framkvæmdirnar án fyrirheita um ríkisaðstoð. Því stuðli aðstoðin að atvinnusköpun, laði til sín fyrirtæki, auki efnahagslega fjölbreytni og búi til störf.

„Aðstoðin til Silicor Materials á Vesturlandi er byggð á uppbyggingarstefnu, sem hefur í för með sér ávinning fyrir allt svæðið og því hefur ESA samþykkt hana,“ segir Sven Erik Svedman forseti ESA í fréttatilkynningu.