Sænski fjárfestingabankinn Carnegie birti ársuppgjör í dag. Uppgjörið var nokkuð yfir væntingum greiningaraðila og hækkaði hagnaðurinn um 70% frá árinu áður. Stjórn Carnegies leggur til að allur hagnaður ársins verði greiddur út í arð og nemur 5,93 SEK á hlut. Samkvæmt Dagens Industri mun Burðarás bjóða tvo menn fram í stjórn bankans en hefur ekki enn gefið upp hverja segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Afkoma Carnegie á fjórða ársfjórðungi var mjög góð og yfir væntingum en hagnaður bankans fyrir skatta var 19% yfir meðalspá markaðsaðila. Bréf Carnegie hækkuðu því í kjölfarið en hækkun þeirra nam rúmum 7%.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að stjórn Carnegie leggur til að allur hagnaður ársins verði borgaður út til hluthafa og því mun Burðarás fá væna arðgreiðslu en eins og fram kemur hér að ofan á Burðarás 20% hlut í Carnegie. Arðgreiðslan nemur um 700 m.kr. samkvæmt okkar útreikningum. Burðarás hefur jafnframt sóst eftir að fá tvo stjórnarmenn kjörna í stjórn Carnegie en fjöldi stjórnarmanna er átta.

Nánar í Viðskiptablaðinu á morgun.