Hlutabréf fóður- og fiskeldisfyrirtækisins Cermaq voru skráð í Kauphöllina í Osló í morgun segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Þar með fjölgar skráðum sjávarútvegsfyrirtækjum úr fimm í sex. Cermaq er annað sjávarútvegsfyrirtækið sem verður nýskráð á þessu ári en Aker Seafoods var skráð á markað í vor. Félagið lauk við hlutabréfaútboð á föstudaginn, þar sem hlutafé var aukið um ríflega 5% auk þess sem norska ríkið minnkaði eignarhlut sinn í félaginu úr 79% í ríflega 40%.

Verð á bréfunum í útboðinu var 44 norskar kr. á hlut sem var í efri kanti þess verðbils sem gefið hafði verið upp segir í Morgunkorni. Töluverð umframeftirspurn var í hlutafjárútboðinu eða ellefuföld m.v. þá hluti sem voru til sölu og er fjöldi stofnanafjárfesta og annarra minni fjárfesta uppistaðan í nýjum hluthafahópi Cermaq. Í ljósi mikils áhuga í útboðinu er talið að norska ríkið muni minnka sinn eignarhlut enn frekar bráðlega. Markaðsvirði Cermaq er nú 4,1 milljarðar norskra króna (37,8 milljarðar kr.)

Cermaq er næst stærsti laxeldisframleiðandi í heimi (á eftir Marine Harvest) og annar stærsti fóðurframleiðandi heims (á eftir Skretting). Rekstrartekjur Cermaq á árinu 2004 námu um 5 mö.NOK, EBITDA nam 538 milljónir norskra króna og hagnaður eftir skatta 185 milljónir. Efnahagur félagsins er sterkur og var eiginfjárhlutfall félagsins um 50% í lok annars fjórðungs á þessu ári. Um 70% af tekjunum komu frá fóðurframleiðslu (EWOS) og 30% frá fiskeldisstarfseminni (Mainstream).

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.