Bandaríski bankinn Citibank, sem er í eigu Citigroup, þarf að borga 700 milljónir dollara, eða tæplega 100 milljarða íslenskra króna, í bætur til viðskiptavina sinna vegna ólöglegra starfshátta varðandi kreditokort.

Neytendastofa Bandaríkjanna segir að sjö milljónir viðskiptavina hafi orðið fyrir barðinu á „afvegaleiðandi markaðssetningu“ Citibank, sem innihélt m.a. lygar um kostnað og gjöld og rukkanir fyrir þjónustu sem viðskiptavinir voru ekki að fá.

Citibank mun einnig þurfa að greiða 70 milljónir dollara í sekt, en bankinn sagði í yfirlýsingu að hann samþykkti refsinguna og að hann hafi unnið með rannsóknaraðilum að málinu.

Citi er ekki eini stóri bandaríski bankinn sem hefur sætt rannsókn vegna kreditkortaviðskipta sinna, en J.P. Morgan Chase mun þurfa að greiða 136 milljónir dollara í bætur.